2.1.2009 | 22:08
Nýtt ár
Gleðilegt ár þið öll sem þetta lesið. Kærar þakkir fyrir öll gömlu árin. Ég er bara svo hrædd um að engin lesi þetta orðið. að minnsta kosti hefur engin athugasemd komið langa lengi. Það er búð að vera svo gott veður um hátíðarnar. Enginn snjór og lítil hálka. Þess vegna er mjög lélegt að ég hef ekki nennt að fara neitt í hús. Drattaðist samt í gær til að kveðja Mána og Möggu og í dag til að kveðja Lovísu og Davíð. En ég hef ekki farið til Önnu að heilsa upp á stelpurnar. Þær eru líklega farnar núna. Þær hringdu heldur ekkert í mig svo ég vona að þeim sé alveg sama þótt þær hafi ekki hitt þær. Það var þó bót í máli að ég sá Snærúnu. Hún kom snöggvast til mín. Og þvílík breyting á einni manneskju. Hún er alveg yndisleg orðin. Það liggur við að ég óski þess að ég eigi hana. Sama mætti auðvitað segja um hinar sysurnar. Þær eru hver annari yndislegri. Ég sá samt litlu skottin hennar Svandísar. Þegar ég ætlaði að hitta hana hafði hún skrpppið í bæinn til að leysa út gáminn og skoða nýja íbúð sem Berglind hafði fengið handa þeim.
Ástarkveðja og óskir um góða glaða daga.
Sigrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
29.11.2008 | 22:43
Einskonar saga
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2008 | 21:56
Nú er það svart
Halló mín elskanlegu. Hér kemur sagan.
Undir fögru skinni.Ég ætti auðvitað ekki að kalla söguna þessu nafni. Það dettur sjáfsagt öllum í hug orðtakið: Flagð undir fögru skinni. Það er bara ekki rétt. Þetta með flagðið. Hér var ekki um flagð að ræða. Þvert á móti. Við fyrstu kynni leit hún út eins og engill. Mér datt líka engill í hug : Bros í bláum augum. Það er eiginlega ekki réttnefni heldur. Augun voru jú blá. Og full af brosi. En það bros var aldrei eins. Það var glaðlegt. Fullt að kæti. Fullt af sorg. Undirfurðulegt. Biðjandi. Spyrjandi. Fullt af athygli. Jafnvel fullt af hatri. En það er ekki fyrr en síðast í sögunni. Og ég ætla ekki að fara að byrja á endinum. Ég byrja á upphafinu. Það er einfaldast.
Okkar fyrstu kynni? Ég hafði verið í fríi í tvo daga. Gekk niður í verslun kl sex á föstudag og keypti snarl í kvöldmatinn. Ég man meira að segja hvað ég keypti. Brauð, skinku og egg. Það var löng röð við kassann. Ég þokaðist í áttina. Þá fannst mér ég heyra nýja rödd. Ég hélt ég þekkti þessar kassadömur hjá okkur. Ég var nefnilega verslunarstjórinn. Á undan mér var stór og þrekinn maður. Þegar hann hafði borgað sá ég hana. Hún leit beint í augun á mér og sagði.
-Gott kvöld. Og brosti. Brosti eins og hún hefði hitt kæran vin. Brosti eins og engill.
-Hva, hvenær byrjaðir þú? Spurði eins og álfur.
-Í morgun. Er það ekki lagi?
Þá mundi ég eftir að Hannes eigandi og drullusokkur, afsakið, hafði nefnt að hann hefði ráðið nýja stúlku í afleysingar. Ég muldraði eitthvað og starði á hana.
-Ertu með eitthvað í körfunni? Glettið bros fylgdi spurningunni.
-Afsakaðu.
Ég tíndi þessa þrjá hluti á borðið.
-Fimm hundruð og sextíu. Fleira?
Ég borgaði með 1000 króna seðli. Horfði á hve öruggum höndum hún afgreiddi. Hún var ekki að byrja í dag.
-Takk fyrir kærlega, sagði hún og rétti mér til baka. Er ekki allt í lagi.
-Nei, sagði ég. Hvernig getur það verið.
-Þetta lagast. Brosið var skilningsríkt.
Ég rölti út og heim. Mig rámaði í að Hannes hafði verið undarlega íbygginn þegar hann sagði mér að það kæmi ný á kassann á föstudag. Engin furða. En þessi var of góð fyrir hann. Leit út eins og saklaus sveitastúlka. Jæja, þær voru auðvitað allar eins úr sveit og bæ.
Morguninn eftir gekk ég beint að kassanum.
-Sæl og velkomin. Afsakaðu þetta í gær. Ég á að heita verslunarstjóri hér en vissi ekki að þú varst byrjuð.
-Já, ég frétti það í gær. Ég heiti Stella.
-Hafsteinn. Þú virðist vera vön.
-Ég vann í búð heima.
-Ágætt. Við ræðum saman seinna.
-Það ætla ég að vona.
-Ég vona að þú gerir ekki allt vitlaust hér.
-Vitlaust?
-Með þetta andlit. Þú veist það kannski ekki-. Hún hló.
-Ég á reyndar spegil. En ég er ekki bara andlit. Hitt er engu síðra.
-Er það. Þú átt sem sagt spegil í fullri líkamsstærð.
-Gat nú verið. Allir eruð þið eins. Ég átti við sellurnar og það er það eina sem þig varðar um.
-Ég hef heldur ekki áhuga á öðru.
Þá leit hún aftur beint í augun á mér og sagði íhugandi.
-Virkilega. Óvenjulegt. Við gætum kannski orðið vinir.
-Óvenjulega gott boð. Ég tek það til athugunar.
Það leið vika. Stella kom mér stöðugt á óvart. Ég gaf henni nánar gætur. Hún var glöð og viðfelldin. En stundum sá ég hana hnykla brúnir og bláu augun skjóta gneistum. Alveg að ástæðulausu. Vinna hennar var óaðfinnanleg. Það var góður vinnuandi í búðinni og hún féll vel inn í hópinn. En ég sá að Hannes var að búa sig undir árás. Hann kom oftar niður í búðina og ef hann keypti eitthvað fór hann ævinlega að kassanum til Stellu. Ég gaf honum gætur. Hann þóttist greinilega þurfa að brýna vopnin. Hann beitti öllum þeim þokka sem hann var svo ríkulega gæddur. Ég get ekki annað en látið hann njóta þess sannmælis. Og það fór eins og mig grunaði. Stellu virtist ekki gruna neitt. Hún virtist ekki hafa hugmynd um úlfinn undir gærunni. Ég varð að vara hana við.
Í lok næsta föstudags sagði ég þegar við mættumst í dyrunum.
-Það var þetta með vináttuna.
-Já, sagði hún. Hvað með vináttuna?
-Ég veit ekki enn hvort það er grundvöllur fyrir henni. En við gætum ef til vill fundið út úr því.
-Ertu með tillögu.
-Hm, við gætum til dæmis farið út að borða.
-Bara þokkaleg hugmynd, en reyndar ekki frumleg.
-Ég er ekki frumlegur.
-Eigum við að segja klukkan sjö á Horninu.
Við löbbuðum út á Hornið um sjöleytið. Fengum okkur fisk. Það var margt um manninn þarna. Næstum fullur salur.
-Mér finnst betra að hafa svona margt fólk. Þá getum við frekar verið ein, sagði ég.
Hún horfði á mig og hló.
-Mér finnst þetta vera dálítið mótsagnakennt, en þó held ég að það sé eitthvað til í þessu. Ef ég væri hér ein þá væri ég einmana innan um svo marga en það er notalegt hér-, hún hikaði með þér.
Þakka þér fyrir, sagði ég.
Við töluðu um vinnuna og veðrið. Hún sagði að fyrst þegar hún fór að vinna við afgreiðslu hefði það verið drepleiðinlegt. Sömu handtökin allan daginn. Það væri þreytandi að sitja á stól allan daginn og stimpla inn tölur. Vinna fyrir fólk sem alltaf var að flýta sér. Eða virtist vera í vondu skapi. Organdi frekir krakkar. Húsmæður í fýlu.
-Fyrst?. spurði ég þegar hún þagnaði.
-Fyrst hvað?
-Hættu krakkarnir að orga og kerlingarnar að fýlupokast.
-Nei aldeilis ekki. En þá komu sellurnar í góðar þarfir. Það er til lítils að hafa sellur í lagi ef þær eru ekki notaðar.
´-Og?
-Ég sagði við sjálfa mig. Upp með munnvikin. Þú ert sjálf í fýlu. Og svo fór ég að brosa við öllum. Það var stundum erfitt, máttu trúa. Ég gerði mér að reglu að hafa brjóstsykurspoka við höndina til að gefa krakkaskrípunum.. Ef mömmurnar voru alveg að springa þá fór ég að hrósa grislingunum. Þvert ofan í það sem mér fannst. Árangurinn varð stórkostlegur. Þær brostu. Krakkarnir bruddu brjóstsykur í staðinn fyrir að nauða og ég skemmti mér.
-Ég skal minnast á kauphækkun við Hannes.
-Þú þarft ekki að vera milligöngumaður hjá okkur Hannesi.
-Svo. Eruð þið orðin vel kunnug.
-Það má segja það.
Það kom undarlegur svipur á hana þegar minnst var á Hannes. Ég gat ekki skilgreint hvort það var viðbjóður eða hatur.
-Þú virðist ekki vera ýkja hrifin.
-Hann er .. Hún hryllti sig og lauk ekki við setninguna.
-Jæja, þá þarf ég ekki að vara þig við.
-Var það til þess sem þú bauðst mér í mat.
-Meðal annars já.
-Veistu, það er tilbreyting að fara út með manni sem----
-Sem hvað?
-Horfir ekki á mig eins og hungraður maður á gómsæta steik.
-Gerir Hannes það.?
-Eins og maður sem er byrjaður að éta, og svo skulum við ekki skemma kvöldið með því að tala meira um Hannes.
Þetta var skemmtilegt kvöld. Upphafið að langri vináttu. Næstu daga gekk lífið sinn vanageng. Mér sýndist Hannes sífellt gerast ágengari. Og þrátt fyrir það sem Stella hafði sagt mér virtist hún taka því með jafnaðargeði. Mér sýndist jafnvel að hún tæki glettni hans og tvíræðu brosi með ánægju. Eins og hún nyti þessarar athygli verslunareigandans. Ég vissi ekki hvað ég átti að hugsa. Var hún að láta undan áleitni glæsimennisins, þrátt fyrir viðbjóðinn. Eða hafði hún verið að skrökva að mér. Verið að fela tilfinningar sínar. En þá þurfti hún vernd. Hún var of góður biti fyrir skepnuna. Hann hafði notað of margar til þess eins að fleygja þeim í ruslið. Svarið kom fyrr en mig varði.
-Heyrðu- sagði hún um fimmleytið einn föstudaginn föstudag. Viltu gera mér greiða-.
-Sjálfsagt-.
-Það er lítil kompa inn af skrifstofunni hans Hannesar. Viltu fara þangað og bíða-
-Til hvers-.
-Hann skrapp aðeins frá. Þegar hann er kominn á skrifstofuna aftur ætla ég að hitta hann. Það gæti verið betra að hafa vitni-.
Ég hlýt að hafa verið eins og spurningamerki í framan því Stella sagði fljótmælt.
-Engar spurningar. En mér þætti betra að vita af þér í kallfæri-.
Mér sýndist Stella vera öðruvísi en hún átti að sér. Mér varð hálfórótt. Hvað var hún að bralla. En ég gekk upp í næstu hæð. Skrifstofa eigandans var ólæst. Ég gekk inn og lokaði hurðinni. Inni í skonsunni innaf voru geymd skjöl og þar var líka ljósritunarvélin. Ég hallaði huðinni í hálfa gátt og kom mér fyrir eins og ég væri í þann veginn að fara að ljósrita. Ég hafði tekið með mér nokkur blöð án þess að vita hvað ég ætlaði að gera við þau.
Von bráðar kom Hannes inn og settist við skrifborðið. Rétt á eftir var barið á dyrnar og einhver kom inn og staðnæmdist við borðið. Ég gægðist fram. Þetta var Stella. Ég heyrði að hún sagði hikandi.
-Ég er að hugsa um----. Mig langar til að - Mér dauðbrá. Þetta var ekki sú Stella sem ég þekkti. Hvað var orðið af öruggu, frjálslegu stúlkunni sem ég hafði nýlega kynnst. Svo heyrði ég sykursæta rödd Hannesar.
-Já. hvað get ég gert fyrir þig. Það er líka ýmislegt sem mig langar til-
Helvítis flagarinn.
-Ég var að hugsa um hvort ég gæti, hérna. fengið kauphækkun-.
-Kauphækkun segirðu. Auðvitað verður svona sæt stelpa að fá vel borgað. En það gæti oltið á ýmsu-
-Ég er alveg tilbúin að vinna lengur og taka aukavaktir, en fyrst og fremst vildi ég gjarnan fá dálitla kauphækkun.-
-Geturðu ekki lifað á þessu kaupi eða ertu að safna fyrir einhverju-.
-Já, reyndar ætla ég í skóla í haust-.
-Eg skil. Aukavaktir segirðu. Værirðu til með að taka aukavaktir heima hjá mér-.
-Heima hjá þér. Hvað á ég að gera þar-?
-Ja, til að byrja með myndirðu þrífa smávegis og síðan ef okkur kemur vel saman gætum við kannski skemmt okkur svolítið. Ég borga slíkar aukavaktir tvöfalt-.
-Ég kann að þrífa en ég er skki mjög skemmtileg held ég. Hvað áttu við með því að skemmta okkur-.
Hannes hló.
-Þú ert ekki svona mikið barn er það. Ertu ekki átján. Svei mér þá ég get ekki farið að útlista það í smáatriðum. Það kemur af sjálfu sér. Það hefur alltaf gert það. Þó hafa sumar verið yngri-
Ég sá í gegnum rifuna á hurðinni að Hannes stóð upp. Svo sagði hann ísmeygilega.
-Ég kann að minnsta kosta að skemmta mér og ég er nokkuð viss um að ég skemmti þeim líka. Þú verður áreiðanlega ekki fyrir vonbrigðum. Ég kann ýmislegt fyrir mér-.
-Heldurðu að Erla hafi skemmt sér-. Rödd Stellu var gjörbreytt, hörð og köld.
-Erla. Þekkirðu hana-.
-Já, ég þekki hana eða á ég að segja þekkti. Nei, stattu kyrr. Ég vil þig ekki nærri mér. Það er ólykt af þér. Erla var fóstursystir mín. Hún kom hingað fimmtán ára að vinna skítverkin fyrir þig og þú drapst hana-.
-Nei heyrðu nú góða mín. Erla kom til mín sjálfviljug og við áttum saman nokkrar góðar nætur. Ekki dó hún af því-.
-Jú. hún dó af því. Og nú er komið að þér-.
Ég greip andann á lofti. Stella hélt á byssu og beindi henni að Hannesi.
-Ertu brjáluð. Viltu gjöra svo vel og leggja frá þér byssuna eða ég hringi á lögregluna-.
-Nei, það gerirðu ekki. Áður en þú getur gripið símann verð ég búin að hleypa af. Þú sest niður og skrifar það sem ég segi þér.-
Það varð nokkur þögn en svo sá ég að Hannes settist niður og greip pennann-.
-Hvað á ég svo að skrifa mín heiðraða ungfrú-. Hann var svolítið skjálfraddaður þrátt fyrir hæðnistóninn.
-Þú átt að skrifa. Ég Hannes Jónsson viðurkenni að ég nauðgaði Erlu Andrésdóttur margsinnis og beitti hana ofbeldi til að fá hana til kynmaka. Þetta gerðist á heimili mínu dagana 2.-20. apríl sl. . Gott. Legðu miðann á borðið mín megin. Rétt. Áður en ég fæ miðann í hendur ætla ég að segja þér dálítið. Þú ert ótíndur skíthæll og varmenni. Og ég ætla að sjá til þess að þú fáir þá hegningu sem þú átt skilið. Ef ég skýt þig ekki núna geri ég það seinna. Erla sagði mér alla söguna. Hún var svo niðurbrotin að hún vildi ekki lifa lengur. Hún fyrirfór sér fyrir mánuði síðan.. Það var þín sök. Ef þú reynir að ákæra mig fyrir hótun þá hef ég þessa játningu þína og upptöku af sögu Erlu-.
-Taktu þá þessa játningu. Hún liggur hér á borðinu-. Ég var hissa hvað Hannes var rólegur. Hvað skyldi hann ætla sér.
-Farðu aftur fyrir stólinn og stattu grafkyrr, annars færðu í kúlu í höfuðið þó það sé alltof auðveldur dauðdagi fyrir glæpamann. Ég hef vitni. Hafsteinn viltu koma fram fyrir-.
Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég hef alltaf vitað að hugrekki mitt er takmarkað. En ég gekk þó fram í skrifstofuna.
-Hver andskotinn, liggur þú á hleri djöfuls auminginn-. Hannes var blár af bræði.
-Taktu miðann þarna á borðinu-, sagði Stella og settu hann í vasa minn. Hringdu svo niður í búð og biddu stelpurnar að koma upp. Þú þarft ekki að tala við nema eina. Þær vita hvað til stendur-
Allar þrjár kassadömurnar komu svo fljótt að þær hljóta að hafa verið við dyrnar. Þær gleyptu andann á lofti þegar þær sáu ástandið og staðnæmdust við dyrnar. Stella mundaði byssuna áfram.Hún var gjörbreytt. Andlitið var eins og greypt í stein og hún beit saman tönnum. Hún hvæsti bókstaflega á Hannes .
-Í allan dag höfum við afgreitt alla sem borga með korti án þess að færa til skuldar. Verlsunin hefur í dag gefið vörur fyrir tugi þúsunda. Hve mikið viltu hækka kaupið við okkur ef við fellum niður ákæruna. Helming. Meira-.
-Djöfuls skepnan þín. Þetta skaltu fá borgað-.
-Þú ert ekki í aðstöðu til að borga eitt eða neitt. Þau gera sig ánægð með helmingshækkun. Ég ætla ekki að skíta mig út á að vinna fyrir þig Hannes Jónsson. Og ef þú reynir að hefna þín á þeim þá kemur til minna kasta. Þá skaltu biðja fyrir þér. Það ætti að skjóta þig eins og hund. Komum héðan út-.
Stella gekk afturábak út úr skrifstofunni. Við hin hentumst niður stigann og hún kom á eftir. Allir voru í uppnámi. Við gátum ekki komið upp einu orði.
-Komið inn á kaffistofu. Við verðum að jafna okkur-.
-En búðin-, stundi ég upp.
-Ég rak alla út og lokaði-, sagði Stella og reikaði inn í kaffistofuna. Þar hnigum við niður í sætin. Allir nema Stella. Hún gekk rólega að kafikönnunni og renndi sér í bolla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2008 | 17:40
Allt í lagi.
Bloggar | Breytt 6.10.2008 kl. 23:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.10.2008 | 16:56
Gömul saga um gamla sæng og draum
Veistu hvað hún er yndisleg. Svo létt. Svo sviflétt. Þú finnur ekki fyrir henni. Of heit?. Jú, stundum of heit. En þá brýturðu upp eitt hornið. Það er nóg ef svalt er í herberginu. Hafirðu gleymt að lækka hitann og úti ríkir sumarnóttin í dýrð sinni, þá sviptirðu henni mjúklega til hliðar. Þú sparkar henni ekki til fóta. Þú sparkar ekki í dúnsæng. Drauminn þinn frá æskuárum. Drauminn þinn sem vaknaði um hrollkaldar vetrarnætur undir þunnu stoppteppi
Stoppteppi? Hvað er það. Það er ullarkemba. Búin til úr lélegustu ullinni þinni. Þeirri með morinu og sneplunum. Þeirri sem ekki er hægt að nota í lopa. Sem aldrei verður notuð í sokka. Þaðan af síður í peysu. Þessi ullarkemba kom úr ullarverksmiðjunni í stórri rúllu, sem var rakin sundur og lögð í hæfilega stórt teppi. Þá var eftir að sauma ver utan um og stinga með vissu millibili. Þú veist, stinga með grófu garni í gegnum ver og ull og ver, stinga til baka á sama stað, hnýta að og klippa. Stinga niður, stinga upp, hnýta að og klippa. Þá er engin hætta á að kemban kuðlist. Að minnsta kosti ekki strax.
En það gerist samt með tímanum. Líklega hefur gamla stoppteppið mitt verið nokkuð lúið. Komið í hnúska. Sums staðar dýnuverið eitt milli mín og kuldans. Ég dró mig í hnút. Reyndi að láta þessa vesælu sæng ná alls staðar niður á dýnuna.Dró hana upp fyrir höfuð, en þá stóðu tærnar út undan. Kreppti mig meira. Andaði undir teppinu. Þá fór enginn hiti til spillis.
En samt. Áður en ég náði að sofna fann ég kuldann læðast í gegn. Þó hafði ég lagst til svefns í ullarsokkum og peysu. Það var bara ekki nóg. Kuldinn læddist í gegnum teppi og föt. Smeygði sér inn að bakinu. Þrýsti sér að lærunum og niður eftir fótum. Ég fann að tærnar voru kaldar. Reyna að hnipra sig enn betur saman. Anda á hendurnar undir teppinu.
Það var þá sem hann kom til mín, draumurinn um dúnsæng. Hlýja, stóra, mjúka dúnsæng. Ég bjó hana til í huganum. Vafði hana að mér. Vissi að hún lokaði kuldann úti. Dúnsængin sú náði yfir tær og upp fyrir höfuð. Ég var örugg. Kuldin náði mér ekki. Svo sofnaði ég við ylinn frá ímyndaðri sæng. Og frostrósirnar uxu á glugganum.
En núna. Hvað hef ég að gera við dúnsæng núna. Ég er í svitakófi. Núna dreymir mig um gamla stoppteppið. En það getur ekki veitt mér svala í heitu myrkrinu. Og dúnsængin mín góða. Hún getur aldrei tekið úr mér hroll bernskunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.9.2008 | 21:32
Drífa sig.
Sælt veri blessað fólkið.
Nú er þetta að verða mánuður, síðan ég bloggaði síðast meina ég. Annað hvort er að hætta eða halda áfram. Ekki nema tvær leiðir. Bráðum eru komin jafndægur. En ég sem er ekki lengur hrædd við myrkrið læt mér á sama standa. Ég verð samt að viðurkenna að ég finn fyrir einmanaleika stundum. Það væri vel þegið ef þið vilduð slá á þráðinn stöku sinnum. Eða væri ekk réttara að segja. Slá á tölurnar.
Þekkið þið fólk hér í bænum sem er býr eitt og getur lítið farið út. Ég veit um eina konu. Ég hugsa stundum að það væri nú fallegt að heimsækja þetta fólk endrum og eins. Og svo verður þetta sjaldnast neitt nema hugsunin. Hvort haldið þið að sé verra: Að sjá ekki þessa þörf eða sjá hana og gera ekkert. Ég held að seinni kosturinn sé verri.
Hér koma þessir venjulegu brandarar. Leit Kólumbusar. Ég var nýkominn til Bandaríkjanna og var á ferð um vesturríkin þegar ég sá Indíána í fullum skrúða. Ég stöðvaði bílinn stökk út og byrjaði að taka myndir. þegar ég hafði lokið því spurði Indíáninn hvaðan ég væri. "Frá Indlandi, sagði ég. "Aha", sagði hann. "Það varst þá þú sem Kólumbus var að leita að þegar hann fann mig.
Bragð er að þá barnið finnur: Það var sérstaklega löng messa á sunnudaginn. Flestir kirkjugesta voru farnir að draga ýsur eða þegar sofnaðir eo enn malaði presturinn. Þá gall allt í einu við hvell barnsrödd aftast í Kirkjunni. "Mamma, er ennþá sunnudagur?
Pabbinn. "Taktu skófluna þarna Pétur og hjálpaðu mér að moka þessari mold. Sonurinn. Attlæ mar, gvar á a sedaní samband.
Ég þekki mann sem hætti að borða góðan mat, reykja, fá sér í glas og sofa hjá. Hann var mjög heilbrgður alveg þangað til hann fyrirfór sér.
Og hin ómissandi speki. Þolinmæði er hæfileikinn til að þola fólk, sem maður þolir ekki.
Ríkisstjórn, sem rænir Pétur til að borga Páli getur allaf reitt sig á stuðning Páls.
Til þess að ferð verði góð þarf maður að hafa góðan stað til að fara frá og koma til aftur.
Þetta var nú allt sem ég hafði að segja í dag. Ég vildi þó bæta við að ég er svo glöð að hún litla systir mín er komin heim á landið bláa, að Hafrún segir að sér gangi miklu betur í stærðfræð og náttúrufræði en áður, að Svandís og fjölskylda flytur (sennilega) heim í vetur, að ég er búin að ganga frá jarðarberjabeðunum fyrir veturinn þó það sé illa gert, að ég er búin að tína 50 lítra af berjum og gefa helminginn, en það er mjög mikilvægt því þá þarf ég ekki að gera neitt neitt úr þeim hlutanum.
Blessi ykkur allar góðar vættir og megi englarnir vaka yfir ykkur.
Letidýrið sem læknaðist vonandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2008 | 15:10
Skam
Halló þið öll. Nú má ég skammast mín. Hef ekki litið á bloggið í margar vikur. En ég er lika búin að fara í ferð um Alpana sem var sérdeilis góð ferð. En við tölum seinna um það. Það er heldur að lagast veðrið. Hitinn á það til að læðast upp í 18 stig en nú þarf að rigna svo gróðurinn skrælni ekki. En þið skuluð ekki halda að rigni bara þegar við viljum. Ég var að byrja að endurplanta í jarðarberjabeðinu mín á Víðilæk Jarðvegurinn var ein og aska ein langt niður og ég þurfti að stinga. Nú stendur Ormsteiti sem hæst og er víst mikið fjör í bænum.
Viljið þið senda eina litla athugasemd við þessu skrifi. Ef engin athugasemd berst held ég að ég hætti bara að skifa blogg.
Letidýrið
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.7.2008 | 21:14
Betra seint en aldrei
Jæja elskurnar mínar þarna úti í blámóðu fjarlægðarinnar. Nú er ég alveg að detta út úr þessum bloggskrifum. Það er sumarið ( sem enn er þó ekki komið) sem gerir það að verkum. Síðustu helgi komu þau systkinin V B H H og L saman í Hamragerði. Á laugardaginn var plöntun og ganga upp fyrir á. Síðan heljarinnar grillveisla og svo var sungið og spilað til klukkan tólf. Það skemmdi svolítið fyrir okkur að það rigndi um kvöldið svo við gátum ekki borðað úti. Á sunnudag var fínasta veður. sól og hiti og þá var útiát og lokið við grillmatinn. Þá fór strollan út að vatni að draga netið og veiðin var einn tittur. Það hefur veiðst mjög lítið í sumar. Þetta var allt mjög skemmtilegt.
Svo koma hér nokkrar hallærislega skrítlur.
Hvað mínútan er lengi að líða veltur á því hvoru megin við baðherbergishurðin þú ert.
Ef maður hringir í símsvarann hjá vinkonu minni biður hún fólk að skilja eftir nafn og skilaboð og hvað klukkan var þegar það hringdi. Kvöld eitt er hún kom heim hafði einhver talað inn á símsvarann hjá henni. " Halló, þetta er Danni. Ég hef greinilega fengið skakkt númer." Eftir smáhlé bætti hann við. "Klukkan er 3.3o"
Ég var í bókabúð og beið eftir að skáldkona áritaði síðustu bók sína. Konan fyrir aftan mig í röðinni sagði við mig. "Þetta eru bestu bækur sem ég hef lesið nokkru sinni. Ég gat ekki lagt þær frá mér" Áður en ég gat svarað leit höfundurinn til okkar og sagði. "Æ, mamma, hættu þessu"
Vandamálið við konur er að þær verða hrifnar af engu - og giftast því síðan.
Og spekin ómissandi í lokin.
Það er ekki fjallið sem við sigrumst á heldur við sjálf.
Sá sem alltaf lætur aðra ráða endar með því að eiga engar grundvallarreglur eftir handa sjálfum sér.
Hversu lítið sem þú átt, notaðu minna.
Ef allir erfiðleika væru vitaðir í byrjun ferðalags, myndu fæstir leggja af stað.
Megi þið vera umvafin sól og hlýju, ást og yndi.
Ástarkveðja.
Fallega konan á Fróni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2008 | 20:50
Hrollur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.5.2008 | 22:21
Meiri hörmungar
Halló elskurnar.
Síðast voru það hörmungar í Asíu. Nú eru hörmungar nær okkur. Ekki eins miklar og í Kína og Burma. En kannski þó jafn stórar miðað við fólksfjölda. Mér finnst merkilegast að húsin skulu standa þetta af sér. Eina góða sögu heyrði ég í dag frá Selfossi. Þarna býr vinkona Birgis Vilhjálmssonar sem dó í snjósleðaslysinu í Fjarðarheiðinni í vetur. Hjá þessari konu sem heitir Hafdís hrundi allt niður á gólf nema minningabókin hans Birgis. Hún stóð opin á miðri kommóðunni og hafð ekki haggast. Það var ekkert sem studdi við hana en þungur vasi sem líka var á kommóðunni var mölbrotinn á gólinu.
Hér koma nokkrar gamansögur eða svoleiðis.
Heðurðu tekið eftir því ...
..að ómögulegt er að fá börnin til að sitja kyrr þegar verið er að taka mynd af þeim, en þegar maður notar myndbandstökuvél fær maður þau ekki til að hreyfa sig.
..að við treystum bönkum fyrir peningunum okkar en þeri treysta okkur ekki fyrir pennunum sínum.
..að maður bakar aldrei þann fjölda af pönnukökum sem maður ætlaði sér.
..Við búun svo sannarlega í tæknivæddum heimi. Litli frændi minn var leika við föður sinn úti um rökkurbil. "Sjáðu pabbi, sólin er að fara af skjánum", sagði hann og benti á sjóndeildarhringinn.
Og spekin. Aðgerðir verða dæmdar af áformunum.
Ástæðan fyrir því að svo margar konur á sextugsaldri þjást af all kyns verkjum er að þær eru á sjötugsaldri.
Miðaldra fólk verður gamalt um svipað leyti og háralitur kvenna breytist úr gráum í svartan.
Jósef var spurður hvers vegna hann væri áskrifandi að tímaritinu Playboy. "Það er af sömu ástæðu og ég er áskrifandi að National Geoprapic- til þess að sjá það sem mér gefst annars ekki færi á að sjá.
Afsakið, ég nenni ekki að skrifa meira og hef þó enga afsökun nema letina.
Ég þakka hugskeytin. Þau halda mér gangandi.
Verið ávalt sólarmegin.
Sigrún
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Sigrún Björgvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar