Ég þakka

Það eru hörmungar í Asíu. Tugir  eða hundruðir  þúsunda láta lífið í flóðum og jarðskjálftum. Hörmulegast er kannski að vita af því fólki sem grefst undir húsunum og lifir þar í marga daga og enginn kemur til bjargar. En hér lifum við í öryggi.  Hér er allt í lagi. Ef okkur vantar eitthvað er bara að skreppa í búðina. Ef við erum þyrst er skrúfað frá krana. Ef okkur langar til að heyra í fólkinu okkar tökum við upp símann og hringjum. Hvað getum við annað gert en senda þakklæti út í geyminn. Verið viss, það kemst til skila.  En ég get flett upp í gömlu Úrvali og sent ykkur einhverja heilaleikfimi eða bara skrítlur og speki.

Hér koma nokkrir málshættir.  Margur hyggur ---í annars garði.  Hafa skal ---þó heimskur kenni. Ekki er ráð nema í ---- sé tekið. Ekki er fullreynt í ------ sinn.  Oft má ---- kyrt liggja.

Og brosa svo. Tveir lögreglumenn fundu þrjár handsprengjur og ákváðu að fara með þær á stöðina. "En ef einhver þeirra springur nú á leiðinni"? spurði sá yngri. "Allt í lagi, við segjumst þá bara hafa fundið tvær".

Það er svo merkilegt í okkar samfélagi að fjöldi fólks eyðir peningum sem það hefur ekki aflað til að kaupa hluti sem það þarfnast ekki til að ganga í augun á fólki sem það þolir ekki.

Úr jarðarfararauglýsingu. "Blóm og kransar eru vinsamlega afþökkuð að ósk hinnar látnu. (Hún var með ónæmi gegn blómum).

Hún: "Það getur hvaða asni sem er nú til dags orðið vel stæður. Hvers vegna getur þú aldrei grætt neitt.?".  Hann: "Ég er sennilega enginn asni.".

Og smáspeki í lokin. Mjög fátt gerist á réttum tíma og annað gerist alls ekki. Hinn samviskusami sagnfræðingu sér um færa þetta til betri vegar.

Menn verða að geta gert það sem þeir halda að þeir geti ekki gert.

Jæja, látum þetta vera nóg í dag. Ég þakka ykkur fyrir allar góðu hugsanirnar í minn garð. Þær hjálpa  mér í gegnum dagana.

Verið sæl og hamingjusöm.

Sigrún.

 


Bjartar nætur

Sæl verið þið öll sem heimsækið mig á bloggið mitt. Það er auðvitað ekkert gaman og ekkert vit í að skrifa ef enginn les. En ég þarf að fá að vita. Þarf að fá litla athugasemd. Það hefur verið kalt í tvo daga. Í gær gránaði í rót. Fyrir nokkrum dögum var hvítagaddur í nokkra daga. En ég segi ekki múkk. Vitið þið af hverju. Af því að loksins er birtan að sigra. Það er ekki lengur aldimmt um vætur.  Og bráðum--nei það er svo stórkostlegt að ég get ekki skrifað það. Ég finn bara til svo mikils léttis. Samt eru hörmungar í heiminum víða. Hundruðir þúsunda hafa farist í Burma og stjórn þeirra neitar að þiggja hjálp aðstoðarmanna erlendis frá. Það eru víða átök og styrjaldir, hungur og drepsóttir.  Neró spilaði á fiðlu meðan Róm brann.  Ég kann ekki að spila á fiðlu. Þess í stað ætla ég að skrifa hér nokkra brandara svo við getum þó hlegið meðan heimurinn ferst - eða svoleiðis. Þessir brandara eru teknir úr gömlu Úrvali. Það var mánaðarrit sem kom út fyrir alllöngu. Og hér koma þeir.

Lífið væri gott ef fólk sem á peninga notaði þá eins og fólk sem ekki á peninga myndi nota peninga ef það ætti peninga.

Því eldri sem þú verður því betri varstu.

Við tölum um að drepa tímann. Það er tíminn sem drepur okkur.

Sérfræðingur dagsins í dag er sá sem fræðir okkur um það sem sérfræðingarnir gerðu rangt í gær.

Lélegur fararstjóri. "Nú förum við framhjá stærsta brugghúsi landsins.  Ferðamaður. Hvers vegna?.

Auðvitað eru kostir við að fljúga. En hver hefur þurft að sitja heilan kukkutíma í rútu sem er ekið hring eftir hring í kringum umferðamiððstöðina.

Ætli þið þolið ekki eins og eina vísnagátu

Hurðum þungum heldur hann

Hraustir fingur iðka hann.

Lystargóður gleypir hann

Göngumóður forðast hann.

Og að endingu fjórir málshættir.

Ekki er ráð nema í ----sé tekið

Hafa skal ---þótt heimskur kenni.

Ekki er fullreynt í -----sinn.

Oft má ----kyrrt liggja.

Þið ráðið nú auðvitað við þessa.

Ég fel ykkur mætti ljóssins og bómanna.

Sigrún

 


Nú er það svart

Halló elskurnar mínar.  Það er 30. apríl og úti er allt á kafi í snjó. Það kyngdi niður bleytusnjó í nótt og í morgun. Snjórinn var 40 sm í garðinum hjá  mér. Fallega blágrenitréð mitt hérna fyrir utan eldhúsgluggann, sem er ábyggilega 7 metra hátt, var heldur illa statt í morgun. Bleytusnjórinn hafði sest á greinarnar og sveigt þær niður svo það var eins og mjó súla. Um sexleytið var hann (snjórinn) siginn niður svo nú stendur það hreykið með greinarnar sínar sveigðar upp á við eins og ekkert hafi í skorist.  Það er heldur hlýnandi spá framundan. Heilar sex gráður um næstu helgi. Best að fara að taka fram stuttbuxurnar. Við förum bara beint í grínið.

Kynferði tölvunnar.

Hvort er tölvan karlkyns eða kvenkyns?. Hún er karlkyns af því að: til að virkja hana þarf að kveikja á henni. Hún er full af upplýsingum en hefur ekkert hugmyndaflug. Hún á að vera til að auðvelda lífið en er lang oftast til vandræða. Um leið og maður hefur fengið sér tölvu kemur í ljós að ef maður hefði beðið aðeins lengur hefði verið hægt að fá miklu betri grip.

Hún er kvenkyns af því að: Enginn  nema skapari hennar skilur rökvísi hennar. Tjáningarformið sem hún og hennar líkar nota innbyrðis er öðrum óskiljanlegt.  Hún geymir í minni sér sérhvern galla þess sem hún á sanskipti við og dregur hann fram í dagsljósið  þegar verst gegnir. Um leið og maður hefur náð í þannig grip kemur í ljós að helmigurinn af tekjum manns fer í að kaupa búnað á hana.

Hér eru nokkrir málshættir sem vantar eitt orð í. Vinsamlega fyllið í eyðurnar. Illur fengur illa ------.Það finnst í -----sem falið er í snjónum.  Bragð er að þá barnið ------. Ekki er -----fjandinn iðjulaus. Oft mælir sá fagurt er ---- hyggur. Flas er ----næst. -----á meðan ekki sekkur.

Og má ekki gleyma spekinni. Það besta sem ég veit er að fá mér bók í hönd, leggjast upp í legubekk og fá mér ærlegan lúr. (Storm.P)..   Enginn mikill listamaður sér hlutina eins og þeir eru.  Annars væri hann ekki mikill listamaður. (Oscar Wilde).. Sagnfræðingur er fyrst og framst maður sem ekki var sjálfur til staðar. (F. Brandt)..  Sígild bók er bók sem allir vildu lesið hafa en en enginn vill lesa. (Mark Twain).

Og í lokin er hér heilaleikfimi fyrir gáfað fólk. Ein vísnagáta þar sem lausnin er eitt orð með sérstaka merkingu fyrir hverja línu (vísuorð).

Líst mér best  ég lúri um stund.

Laglegt þykir nafnið varla

Ekki bratti, ekki grund.

Undirballans má það kalla.

Allar góðar vættir vaki yfir ykkur í bráð og lengd.

 Sigrún

 

 

 


Sumarkveðja

Til allra vina og vandamanna og líka hinna.

Þeir segja að suamrið hafi

siglt hingað norður í dag.

Og víst er bjart yfir bænum

og blærinn með spánýtt lag.

 

Svo yndisleg íslensk kveðja,

einstök í heimi hér.

Gleðilegt sumar góða fólk

Gleðilegt sumar frá mér.

Sigrún Bj.


leiðrétting

Smá leiðrétting við síðasta blog. Þar stendur -Og þá er komið að gríninu og spekinni. Byrjum á því fyrrnefnda,-. Á að vera.-  byrjum á því síðarnefnda. Afsakið mínir elskanlegu.

SB


Rugluð í tímanum

Heil og sæl öll þið sem þetta lesið og megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur.

Í þetta skipti ætla ég að gera eins og flestir aðrir bloggrar. Ég ætla að skrifa svolitið um sjálfa mig, en svoleiðis skif hafa farið mjög í minar fínu taugar hingað til. Ég er að gefast upp á veðurfarinu.  Það er auðvitað ekkert nýtt. þannig er það á hverju vori. Fyrst er að bíða eftir birtunni og þegar komið er fram í aríl tekur við biðin eftir hlýjunni. Í þetta sinn hef ég þó góða skýringu á óþolinmæði minni. Páskarnir voru svo snemma og okkur finnst að vorið komi á eftir páskum. En þetta styttist óðum.

Vel á minnst páskar. Á pálma fermdist yndislegur sonarsonur minn. Hann fékk þessa vísu frá ömmu í kortið sitt.

Það vöktu dísir við vöggu þína

og völdu þér fegurstu óskina sína.

Svo gakk þú nú hiklaust, góður drengur

því glæsileg framtíð mun við þér skína.

Þá er komið að gríninu og spekinni. Byrjum á því fyrrnefnda.

Guð læknar og læknirinn tekur við gjaldinu.  (Benjam. Frankl)

Viska er hæfileiki, sem hindrar þig í að komast í þá aðstöðu að þú þarfnist hennar.

Ég er ekki bjartsýnismaður því ég er ekki viss um að allt fari vel. Ég er ekki heldur svartsýnismaður því ég er ekki viss um að allt endi illa. Ég el bara von í hjarta mér. Von er sú tilfinning að lífið og vinnan hafi einhvern tilgang. Annaðhvort hefur maður hana eða ekki, algjörlega óháð ríkinu eða heiminum í kring. Líf án nokkurrar vonar er tómt og gangslaust líf. Ég get ekki ímyndað mér að ég myndi berjast fyrir einhverju ef ég eygði enga von. Ég þakka guði fyrir þessa náðargjöf. Hún er eins stór og lifið sjálft. (václav Havel)

Og brosa svo: Eitt sinn var ég stödd í rándýrri leðurverslun og dáðist að fallegu veski. Afgreiðslumaðurinn kom til mín og spurði hvort mig vantaði aðstoð. "Ég er bara að skoða. Ég kem aftur þegar ég er orðin milljónamæringur", svaraði ég. "Allt í lagi, við höfum opið til sex", svaraði hann.

Baðkerið var fundið upp árið 1850. Fyrsta símtalið var árið 1875. Í 25 ár gat maður sungið í baði án þess nokkurntíma að þurfa að óttast að síminn hringdi á meðan.

"Segðu mér nú alveg hreinskilningslega, læknir, er ég alvarlega veikur ?".  "Ja, alvarlega og alvarlega. Við skulum orða það svona. Ef ég kem þér aftur á fætur verð ég heimsfrægur".

Verið glöð og sæl.

Sigrún

 

 


Brosum

Er ekki rétt að reyna að brosa á meðan við bíðum með óþreyju eftir vorinu. Hér koma skrítlur.

Nauðsynlegt að vera getspakur."Svo þú giftist listmálara. Hvernig gengur það?".  "Ja, svona og svona. Hann málar og ég bý til mat og svo giskum við  á hvað þetta á að vera hvort hjá öðru.

Benni litli var að sýna frænku sinni nýja úrið sitt." Og segir svo úrið þér hvað klukkan er?", spurði hún. "Nei, ég þarf að líta á það, sagði Benni".?

Hjá ilmvatnssala. Ertu með eitthvað sem getur breytt köldum fiski í rétt dagsins"?.

Kollegar mínir, sem alltaf voru eru að byrja í nýjum megrunarkúrum voru að ræða um megrunartöflu sem átti að brenna hitaeiningum meðan maður svæfi. Ein konan kom með þessa skemmtilegu athugasemd. Vekið mig bara þegar ég verð komin niður í stærð þrjátíu og sex.

Góða skemmtun. Sigrún

 


Gamall leikur

Gamall leikur

Sæl og blessuð öll sömul. Nú hefur bara einn skrifað athugasemd svo nú fer ég að hætta þessari vitleysu. Í þetta skipti er ég með alveg nýtt efni en þó svo hundgamalt að ég notaði það þegar ég var kornung og þá var það meira segja gamalt. Og hér kemur það.
Þegar veðrið er leiðinlegt eða við erum lasin er gott að kunna hugleiki. Það eru leikir sem hægt er að fara í án þess að hafa nokkurt dót og það er hægt að leika þá í rúminu (ef maður er lasinn) eða standandi á höfði (ef maður getur staðið á haus). eða bara sitjandi á stól  (ef maður á stól). Í þessum leik ruslast ekki út svo ekki þarf að taka til  á eftir. Það er líka hægt að fara í hann í löngum bílferðum þegar maður orðinn leiður á að telja rauðu og bláu bílana (ef maður kanna þá telja) sem koma á móti. Ég er að tala um leikinn
Að gefa í horn.
Þátttakendur geta verið tveir til fjórir. Ef tveir leika hugsar annar sér að einhver ákveðin kona eða stelpa sé í hverju horni herbergisins -eða bílsins ef maður er í bíl. Hinn hugsar sér ákveðinn karlmann eða strák í hornin. Þegar það er búið segir  annar hvaða stelpa sé í þessu horni sem hann bendir á. Hinn segir þá hvaða karl hann hafi sett þar. Ef fjórir eu í leiknum er líka hægt að setja bíl og hús í hornin.  Leikurinn gæti t.d. farið svona. 
Í þessu horni er Heiður. Hver er með henni?. Laddi. Hvar búa þau? Í þjóðleikhúsinu. Hvernig bíl eiga þau? Traktor. Í þessu horni er Lína Langsokkur. Hver er með henni?.  Bragi Björgvins:  Hvar búa þau?. Í fjósinu. Hvernig bíl eiga þau?. Strætó. 
Góða skemmtun:
Og brosa svo:Sefur þú betur en áður? Fórstu að mínum ráðum og taldir?.-  Já ég komst upp í 58.347.  Sofnaðir þú þá?. Nei, þá var kominn tími til að fara á fætur.  - Ferðamaðurinn spurði lögreglumanninn. Er þetta önnur gata til vinstri?.  -  Læknirinn: Þessi lyfseðill fyrir svefntöflum gildir í sex mánuði.  Sjúklingurinn:  Ég ætlaði nú ekki að sofa svo lengi. -  Kibba Veistu hvaða munur er á hesti og póstkassa?.  Kobbi. Nei. Kidda. Þá getur þú ekki orðið bréfberi.
Megi allar góða vættir annast ykkur alla daga.
Ástarkveðjur
Gamla letiblóðið.
Þið megið gjarnan skrifa athugasemd.

Er huldufólk til?

 

Sagan gerist í Skagafirði um 1914 minnir mig. Litli drengurinn sem fékk gjöfina frá  huldumanninum dó fyrir örfáum árum rúmlega níræður. Og þá kemur sagan.

Unglinsstúlka að nafni Snjólaug var vinnukona á bæ í Vesturdal. Einu sinni um vetur fékk hún leyfi til að heimasækja vinkonu sína sem átti heima ekki langt frá, á bæ sem heitir Ánastaðir og var yfir lágan háls að fara. þetta var um vetur og sæmilegt veður en þó snjómugga. Þegar hún kemur á hálsinn þar sem eru klettar stansar hún og hallar sér upp að stökum kletti. Þá veit hún ekki fyrr til að hjá henni stendur ljósgrár hestur, geysilega fallegur og glæsilegur. Hún verður mjög hissa og gengur í kringum hestinn til að skoða hann. Þá er þar allt  í einu þar kominn höfðinglegur maður, vel búinn og ávarpar stúlkuna fremur hryssingslega. Spyr  hvort hún hafi snert hestinn. Hún kvað nei við og var nú orðin smeyk. "Það er gott ", sagði maðurinn, "Því annars hefði ég tapað honum". Svo fer hann inn á sig tekur upp lítinn kross úr snúnum silfurvír. Var krossinn bundinn  svo hann myndaði þrjár lykkjur. "Farðu með þennan kross og færðu litla drengnum á Ánastöðum. Láttu hann þó ekki hafa hann núna en innan átta daga verður krossinn að vera kominn til hans." Stúlkan tekur við krossinum, en maðurinn  fer á bak og þeysir í brott. Stúlkan veitir því þá athygli að engin spor eru eftir hestinn né heldur manninn. Verður hún þá mjög hrædd og tekur til fótanna sem leið lá í Ánastaði. Þar var vinkona hennar sem hét Monika og varð síðan fræg fyrir búskap sinn á Merkigili. Hún er þar allan daginn og fær vinkonu sína til að fylgja sér heim síðdegis og fara þær ekki hálsinn heldur út fyrir hann. Viku síðar biður hún um leyfi til að fara aftur í Ánastaði, en það var ekki auðfengið. Varð hún loks að segja upp alla sögu og sver og sárt við leggur að hún sé sönn og þori hún ekki annað en gera það sem maðurinn ókunni skipaði. Loks fékk hún leyfið, fer aftur í Ánastaði, hitti foreldra drengsin í einrúmi, og sagði þeim upp alla sögu. Þau rengdu hana um söguna en loks fengust þau til að taka við krossinum.  Drengurinn litli var skírður Guðmundur og var síðar kallaður huldudrengurinn. Honum var ekkert um þá nafngift gefið né heldur krossinn. Þessi kross er nú geymdur í Goðdalakirkju og í bókinni er viðtal við dóttur Guðmundar sem er líklega um sextugt. Hún segir m.a. frá því að margir hafi reynt að leysa hnútinn á silfurvírnum en enginn getað. Sagan búin.

Svo ef þið eigið leið um Skagafjörð þá væri ekki úr vegi að fara inn í Goðdali og sjá huldukrossinn. Þetta var sem sé  sagan um krossin sem allir trúa að sé frá huldufólki kominn. Mér finnst hún merkileg. Hvað finnst ykkur?.

Verið öll góðum vættum falin, bæði úr mannheimum og hulduheimum og öllum heimum.

Hamros, sigrún

 


Veðurfarsvísur

Sæl elsku bloggsíða og allir sem nennið að lesa þetta.Í dag verð ég mjög á þjóðlegum nótum. Ég ætla sem sé að kenna ykkur tvær veðurspávísur, Sem ég heyrði í æsku á hverjum vetri um þetta leyti. Sú fyrri er um 25 janúar sem er Pálsmessa og er svona. Sé heiðskírt veður og himinn klárá heilaga Pálusmessu.mun þá verða mjög gott ármaður upp frá þessu.  Nú fór svo illa fyrir mér að ég gleymdi Pálsmessunni og man auðvitað ekki hvernig veður var þann dag. en þennan dag var Reykjanesbrautinni lokað vegna ófærðar svo kannski hefur verið sæmilega bjart veður hér þennan dag. Hin vísan á við Kyndilmessu sem er 2. febrúar og það er einmitt í dag. Sú vísa er  svona Ef í heiði sólin sestá sjálfa Kyndilmessusnjóa vænta máttu mestmaður upp frá þessu.  Í dag er hér snjófjúk og þykkt loft svo spáin er góð. Það var nefnilega svo í gamla daga þegar afkoma sveitaheimila byggðist á því að hægt væri að beita fénu sem mest og spara hey var snjórinn versti óvinurinn.En í þessum vísum felst að bjart veður á Pálsmessu þýddi lítil snjóalög en á Kyndilmessu snerist þetta við. Heiðskírt veður boðaði snjó og meiri snjó. Þetta var nú skemmtilegt. Í næsta bloggi ætla ég að segja ykkur huldufólkssögu þar sem ekki er hægt að hrekja að huldufólk er til og hefur stundum samskipti við mannfólkið.Lifið í gleði og látið frostið ekki hafa slæm áhrif á ykkur. Besta ráðið er kannski að fara bara út og gefa sk.. í kuldann og veturinnGuð geymi ykkur alla daga.Sigrún

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigrún Björgvinsdóttir

Höfundur

Sigrún Björgvinsdóttir
Sigrún Björgvinsdóttir
Bý á Egilsstöðum. Gamall kennari en nú skógarbóndi
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband