5.10.2008 | 16:56
Gömul saga um gamla sæng og draum
Veistu hvað hún er yndisleg. Svo létt. Svo sviflétt. Þú finnur ekki fyrir henni. Of heit?. Jú, stundum of heit. En þá brýturðu upp eitt hornið. Það er nóg ef svalt er í herberginu. Hafirðu gleymt að lækka hitann og úti ríkir sumarnóttin í dýrð sinni, þá sviptirðu henni mjúklega til hliðar. Þú sparkar henni ekki til fóta. Þú sparkar ekki í dúnsæng. Drauminn þinn frá æskuárum. Drauminn þinn sem vaknaði um hrollkaldar vetrarnætur undir þunnu stoppteppi
Stoppteppi? Hvað er það. Það er ullarkemba. Búin til úr lélegustu ullinni þinni. Þeirri með morinu og sneplunum. Þeirri sem ekki er hægt að nota í lopa. Sem aldrei verður notuð í sokka. Þaðan af síður í peysu. Þessi ullarkemba kom úr ullarverksmiðjunni í stórri rúllu, sem var rakin sundur og lögð í hæfilega stórt teppi. Þá var eftir að sauma ver utan um og stinga með vissu millibili. Þú veist, stinga með grófu garni í gegnum ver og ull og ver, stinga til baka á sama stað, hnýta að og klippa. Stinga niður, stinga upp, hnýta að og klippa. Þá er engin hætta á að kemban kuðlist. Að minnsta kosti ekki strax.
En það gerist samt með tímanum. Líklega hefur gamla stoppteppið mitt verið nokkuð lúið. Komið í hnúska. Sums staðar dýnuverið eitt milli mín og kuldans. Ég dró mig í hnút. Reyndi að láta þessa vesælu sæng ná alls staðar niður á dýnuna.Dró hana upp fyrir höfuð, en þá stóðu tærnar út undan. Kreppti mig meira. Andaði undir teppinu. Þá fór enginn hiti til spillis.
En samt. Áður en ég náði að sofna fann ég kuldann læðast í gegn. Þó hafði ég lagst til svefns í ullarsokkum og peysu. Það var bara ekki nóg. Kuldinn læddist í gegnum teppi og föt. Smeygði sér inn að bakinu. Þrýsti sér að lærunum og niður eftir fótum. Ég fann að tærnar voru kaldar. Reyna að hnipra sig enn betur saman. Anda á hendurnar undir teppinu.
Það var þá sem hann kom til mín, draumurinn um dúnsæng. Hlýja, stóra, mjúka dúnsæng. Ég bjó hana til í huganum. Vafði hana að mér. Vissi að hún lokaði kuldann úti. Dúnsængin sú náði yfir tær og upp fyrir höfuð. Ég var örugg. Kuldin náði mér ekki. Svo sofnaði ég við ylinn frá ímyndaðri sæng. Og frostrósirnar uxu á glugganum.
En núna. Hvað hef ég að gera við dúnsæng núna. Ég er í svitakófi. Núna dreymir mig um gamla stoppteppið. En það getur ekki veitt mér svala í heitu myrkrinu. Og dúnsængin mín góða. Hún getur aldrei tekið úr mér hroll bernskunnar.
Um bloggið
Sigrún Björgvinsdóttir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Halló!!!
Góð saga Er hún um þig?
Potturogpanna (IP-tala skráð) 14.10.2008 kl. 18:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.